top of page

Siðareglur um vernd barna í starfsemi

LL- samskipta og fjölskylduráðgjafar ehf

Sem starfsmaður/fulltrúi LL- samskipta og fjölskylduráðgjafar ehf mun ég í störfum mínum fyrir fyrirtækið:

• Bera virðingu fyrir börnum og réttindum þeirra.

• Fylgja reglum og verkferlum LL- samskipta og fjölskylduráðgjafar ehf að tryggja að vernd og hagsmunir barna séu ávallt mitt helsta forgangsatriði.

• Bregðast við málum er varða vernd barna hratt og örugglega og tilkynna þau í samræmi við þá tilkynningarferla sem mér hafa verið kynntir.

• Þekkja stöðu mína sem fyrirmynd fyrir börn og gera mér grein fyrir þeirri ábyrgðarstöðu sem ég hef gagnvart börnum sem starfsmaður/fulltrúi LL- samskipta og fjölskylduráðgjafar ehf. Ég mun því vanda hegðun mína öllum stundum til að tefla stöðu minni ekki í tvísýnu eða fara yfir viðeigandi mörk, þ.m.t. þegar um rafræn samskipti er að ræða.

• Gæta hegðunar minnar í garð barna. Ég mun ekki taka þátt í neinum athöfnum sem gætu ógnað barni eða velferð þess á neinn hátt. Dæmi um slíka hegðun er hvers kyns ógnandi framkoma, líkamlegt eða andlegt ofbeldi eða misnotkun, niðrandi/smánandi framkoma, eða hvers kyns kynlífsathafnir (með eða án snertingar) með börnum. Eins mun ég forðast aðstæður þar sem ég er ein/n í lokuðu rými með barni þar sem ekki er hægt að bera vitni um hegðun mína.

• Þekkja og virða viðeigandi mörk þegar ég á í beinum eða óbeinum samskiptum við börn. Ég mun hafa í huga mismunandi mörk einstaklinga. Ég mun ekki eiga frumkvæði að líkamlegri snertingu við börn (svo sem faðma þau eða taka þau í fangið) og tryggja að hvers konar líkamleg snerting sem barn á frumkvæði af sé vel innan velsæmismarka. Eins mun ég ekki eiga frumkvæði að persónulegum samskiptum við börn sem ég kynnist vegna tengsla minna við LL- samskipti og fjölskylduráðgjöf ehf. Þetta á einnig við um rafræn samskipti og netnotkun.

• Gæta heiðarleika og trúnaðar í samskiptum mínum við börn. Ég mun gæta þess sérstaklega að gefa barni aldrei loforð sem ekki er hægt að standa við eða lofa barni trúnaði sem ekki er hægt að standa við. Sýna umhyggju og virðingu í samskiptum mínum við eða um börn. Ég mun ekki sýna fordómafulla hegðun í samskiptum mínum við eða um börn, óháð aldri þeirra, þjóðerni, uppruna, kynþætti, litarhætti, kynvitund, kynhneigð, trúarbrögðum, skoðunum, líkamlegri og andlegri getu, efnahag, stöðu eða hegðun foreldra, eða öðrum þáttum.

• Gæta þess að styðja aldrei við eða samþykkja þátttöku barns í nokkurs konar ofbeldisverknaði, svo sem einelti, gagnvart öðru barni.

• Tryggja að börn sem þarfnast sérstaks stuðnings (vegna fötlunar eða annarra aðstæðna) hljóti þann stuðning sem þörf er á svo þau njóti sömu verndar og eigi sömu möguleika og tækifæri og önnur börn.

• Bera virðingu fyrir siðum eða venjum tengdum ólíkri menningu eða trúarbrögðum barna sem ég vinn með eða fjölskyldu þeirra, svo lengi sem öryggi barna er ekki ógnað.

• Gæta trúnaðar og öryggis hvað varðar meðhöndlun persónuupplýsinga um börn í tengslum við LL- samskipti og fjölskylduráðgjöf ehf. Tryggja að persónuverndarlögum sé fylgt söfnun persónuupplýsinga, varðveislu og miðlun. Ég mun gæta þess að fá skriflegt leyfi barns og foreldris (eins og við á og hægt er) áður en upplýsingum um barn er miðlað.

• Tryggja að persónuupplýsingum um börn sem aflað er í gegnum LL- samskipti og fjölskylduráðgjöf ehf séu aðeins notaðar í tengslum við starfsemi miðstöðvarinnar. Ég mun þannig aldrei varðveita upplýsingar í mínum persónulegu tækjum né deila þeim persónulega, á samfélagsmiðlum.

• Tryggja að allt margmiðlunarefni sem inniheldur eða tengist börnum sýni barn á viðeigandi og virðingarfullan hátt. Ég mun einnig gæta þess að efnið ógni ekki velferð barna.

• Tryggja að þegar barn deilir sögu sinni eða skoðunum sé það gert á öruggan og ábyrgan hátt. Þannig sé barn ekki spurt óviðeigandi spurninga eða beðið um að deila nærgöngulum upplýsingum eða áfallasögum, nema það hafi verið sérstaklega samþykkt og undirbúið fyrirfram. Hlú þarf að andlegri velferð barnsins og þeim tilfinningum sem frásögnin kann að kalla fram, sem og hlúa að utanaðkomandi öryggi barnsins og að frásögnin setji það ekki í hættu. Þá skal tryggja eftir fremsta megni leiðir fyrir barn til þess að leita aðstoðar eða deila upplifun sinni eftir að verkefni er lokið.

Samþykkt af verndarfulltrúa LL- samskipta og fjölskylduráðgjafar ehf 25.09.2022

bottom of page